Nýburagjörgæsla (Vökudeild)
Börn sem fæðast áður en fullri meðgöngu er lokið (fyrir 37. viku meðgöngu), veikir eða of léttir nýburar, þurfa að fara á nýburagjörgæslu. Á Barnaspítalanum heitir sú deild Vökudeild.
Sum börn þurfa að dvelja á deildinni í nokkra daga, en flest eru í nokkrar vikur upp í nokkra mánuði, áður en þau eru nógu heilsuhraust til að mega fara heim.
Það fyrsta sem þú tekur eftir þegar þú kemur inn á deildina, eru píp úr tækjum, lykt af sápu og spritti (út af stöðugum handþvotti) og ótrúlega rólegt starfsfólk.
Ekki hika við að spyrja spurninga og ekki vera hrædd/ur við að snerta örsmátt barnið. Mæður og feður geta tekið jafnan þátt í brjóstagjöf og kengúrumeðferð, sem hjálpar til við að mynda tengsl við barnið.
Þið eigið eftir að læra hvað mismunandi píp-hljóðin tákna og að skipta um bleyju á barninu án þess að fjarlægja það úr hitakassanum. Á þessari síðu fáið þið að vita meira um algengustu tæki sem eru notuð á nýburagjörgæslum, vinir & fjölskylda fá góð ráð um hvernig hægt er að hjálpa, og ef barnið á systkini, þá eru hér nokkrar tillögur um hvernig er best að útskýra fyrir þeim hvers vegna litli bróðir eða litla systir geta ekki komið strax heim.
Helstu tæki á Vökudeild
Hitakassi
Heilandi umhverfi fyrir fyrirbura og veika nýbura. Þegar börn fæðast fyrir tímann, eru þau enn á fósturstigi og ekki tilbúin fyrir heiminn. Hitakassinn er notaður til að koma jafnvægi á líkamshita og hjálpa til við þyngdaraukningu og þroska. Hann er stilltur sérstaklega eftir þörfum hvers barns. Hitakassinn er hlýr, með góðan raka og dempar umhverfishljóð. Oft eru sett teppi yfir hitakassann til að minnka áreiti frá ljósi og hljóðum úr umhverfinu, svo barnið fái þann svefn sem það þarfnast til að vaxa og dafna. Það að hylja hitakassann hjálpar fyrirburum að sofa lengur í einu og dregur úr áreiti sem fylgir hreyfingu fyrir utan „húsið“ þeirra. Það örvar einnig þroska heila og augna.
CPAP – Síblástur
Glæra gríman er kölluð CPAP (sípap), eða síblástur, og veitir barninu stöðugt súrefnisstreymi. Hún er notuð við meðferð fyrirbura og nýbura með vanþroskuð lungu, glærhimnusjúkdóm (RDS) eða berkju- og lungnarangvöxt. Síblástur getur dregið úr hættu á sjónukvilla fyrirbura, sem er augnsjúkdómur.
Fyrir nokkrum áratugum var sjónukvilli fyrirbura algeng afleiðing þess að háu súrefnismagni var dælt inn í hitakassana.
Öndunarvél
Þessi tegund öndunaraðstoðar er notuð þegar fyrirburinn getur ekki andað án aðstoðar. Hlýju og röku lofti er dælt í lungu barnsins gegnum nef eða munn, með plastslöngu. Slangan er oft fest með plástrum við andlit barnsins, sem skilur eftir sig tímabundin ör á húðinni.
Súrefnismettunarmælir
Mælirinn er vafinn með mjúkri grisju. Hann er settur á hönd eða fót barnsins, til að mæla mettun blóðrauða (hemóglóbíns).
Sonda
Sonda er þunn plastslanga sem fer inn um nef eða munn barnsins, alla leið niður í maga.
Slangan færir mat eða lyf beint í maga barnsins.
Jafnvel þótt barnið geti ekki enn verið á brjósti, er hægt að gefa brjóstamjólk gegnum sondu.